Gallerí Fold hefur rekið sýningaraðstöðu í Reykjavík frá árinu 1994 og heldur að meðaltali 12 myndlistarsýningar á ári en hver sýning stendur yfir í rúmar tvær vikur. Yfirleitt er um einkasýningar að ræða en þó er hluti af sýningarhaldinu samsýningar.

Frítt er inn á allar sýningar.

Myndlistarsýningar og uppákomur tengdar þeim eru afar mikilvægur hluti af starfseminni og hefur Gallerí Fold fullan hug á að halda áfram að efla þann þátt og jafnframt að stuðla að auknum áhuga almennings á myndlist með því að auka fjölbreytileika í vali á listamönnum.

Gallerí Fold hefur tekið þátt í Menningarnótt Reykjavíkur frá upphafi. Meðal fastra liða í sýningarhaldi gallerísins eru sýningarnar á Menningarnótt sem hafa meðal annars verið tileinkaðar látnum listamönnum en aðrar sýningar eru á verkum samtíma listamanna.

Jóla- og sumarsýningar gallerísins eru samsýningar listamanna sem galleríið er umboðsaðili fyrir og hafa þær ávallt notið mikilla vinsælda meðal almennings. Galleríið heldur einnig reglulega sýningar þar sem verkin eru ekki til sölu og því engin hagnaðarvon heldur er markmiðið eingöngu fræðsla og ánægja fyrir listunnenda og eru þær jafnan úr einkasöfnum. Árlegar sýningar á verkum gömlu meistaranna hafa ávallt verið vinsælar og mikilvægur þáttur í sýningarflóru Reykjavíkurborgar. Starfsmenn taka einnig reglulega á móti hópum nema bæði á grunnskólaaldri sem og á framhalds- og á háskólastigi í fræðsluskyni.

Gallerí Fold hefur í gegnum tíðina átt samstarf við hina ýmsu aðila vegna sýningarhalds og má meðal annars nefna myndlistarsýningu í Washington D.C. í húsakynnum IMF (Alþjóða gjaldeyrissjóðnum) sem haldin var árið 2000 í samstarfi við Utanríkisráðuneytið. Einnig má nefna sýningu á verkum Andy Warhol sem haldin var á menningarnótt árið 2003 þar sem sýnd voru verk úr einkasafni Richard Weisman. Sýningin sló öll aðsóknarmet gallerísins en talið er að um 10.000 manns hafi séð sýninguna. Mikla athygli vakti sýning á verkum Louisu Matthíasdóttur árið 2000 en hún var haldin í samvinnu við ættingja listakonunnar. Aðsókn á sýninguna var mjög góð eða um 5-6000 manns. Sýningar á teikningum Halldórs Péturssonar hafa einnig verið haldnar í samstarfi við erfingja listamannsins og á verkum Nínu Sæmundsson úr einkasafni. Þá hefur Gallerí Fold staðið fyrir sýningum á einkasafni herra Anthony J. Hardy, fyrst í Hong Kong árið 2013 og síðar í Reykjavík 2019. Gallerí Fold hefur tekið þátt í listamessunum Art Copenhagen og North Kunstmesse í Danmörku.