Guðrún útskrifaðist úr málardeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands vorið 1997 og lauk kennslufræði við Listaháskóla Íslands 2005. Einnig hefur Guðrún lært tækniteiknun og var einn vetur við nám í Kvikmyndaskóla Íslands.
Guðrún er félagi í Sambandi íslenskra myndlistarmanna.
Þrívíð verk, skúlptúrar og lágmyndir, hafa verið mest áberandi í list Guðrúnar undanfarið en innsetningar, myndbönd og málverk hafa einnig verið viðfangsefni hennar. Efnin sem Guðrún notar eru gjarnan úr daglega lífinu, t.d. hefur iðulega mátt sjá brúðuparta í verkum hennar undanfarið, sem og iðnaðarefni eins og rafmagnsvír, nagla, glerbrot og sand svo eitthvað sé nefnt.
Verkin, segir Guðrún, fjalli gjarnan um náttúruna og manneskjuna sem hluta af henni, tilraunir okkar til að hafa stjórn á náttúrunni og breyta náttúrulegu ferli. Þau lýsi einhverskonar rofi, líkamlegu, andlegu eða efnislegu, huglægu ástandi eða hugarfjötrum sem koma fram sem frosið, þvingað ástand sem erfitt er að hafa stjórn á.
Guðrún hefur haldið nokkrar einkasýningar s.s. í Gallerí Skugga, Listasalnum Man og Gallerí Fold auk þess sem hún hefur tekið þátt í ýmsum samsýningum. Guðrún hefur einnig gert leikmyndir og búninga og má þar nefna leikmyndina í Sellofon sem sýnt var af Hafnarfjarðarleikhúsinu við miklar vinsældir, leikmynd og búninga í Emma og Ófeigur með Stopp leikhópnum o.fl.