Egill Eðvarðsson (1947)

EGILL EÐVARÐSSON er fæddur á Akureyri í október 1947 og lauk þaðan stúdentsprófi áður en hann hélt til myndlistarnáms í Bandaríkjunum árið 1967. Eftir ársdvöl fyrir vestan settist hann að í Myndlista- og handíðaskóla Íslands og lauk þaðan prófi sem myndlistarkennari árið 1971. Sama ár réðist EGILL til starfa hjá Sjónvarpinu (seinna Rúv), en fyrirhugaði þó að halda nokkru síðar til Hollands eða Þýskalands til framhaldsnáms. Ekkert varð úr því að EGILL færi utan því hann ílengdist í margbreytilegum störfum fyrir Sjónvarpið næstu áratugi og starfar þar enn tæpum 50 árum síðar sem dagskrárgerðarmaður og upptökustjórnandi. EGILL telst án efa vera einhver allra reyndasti og farsælasti sjónvarpsmaður landsins auk þess sem eftir hann liggja fjölmörg höfundaverk, ýmsar merkar heimildarmyndir og leiknar kvikmyndir bæði fyrir sjónvarp og kvikmyndahús þar sem hvað þekktastar eru líklega myndirnar Húsið, Dómsdagur og Agnes. Myndlistin hefur þó alltaf fylgt AGLI, sem haldið hefur fjölda sýninga í gegnum árin á Íslandi og víðar og hvergi hægt á sér heldur færist allur í aukana þessi misserin og teflir nú fram nýjum og ferskum viðfangsefnum sem aldrei fyrr.