Cey Adams

Cey Adams er fæddur og uppalinn í New York borg og býr þar enn. Hann hóf feril sinn sem götulistamaður og skapaði og sýndi með listamönnunum Jean-Michel Basquiat og Keith Haring. Hann kom fram í hinni sögufrægu heimildamynd PBS Style Wars (1982) sem er merkileg heimild um neðanjarðarlist í New York á þeim tíma. 

Hann starfaði sem listrænn stjórnandi hjá Def Jam Recordings þar sem hann stóð meðal annars að stofnun hönnunarhússins Drawing Board ásamt fleirum. Það sérhæfði sig í sköpun sjónrænna einkenna í tónlistarheiminum fyrir þá listamenn sem störfuðu með fyrirtækinu, svo sem Run DMC, Beastie Boys, LL Cool J, Public Enemy, Notorious B.I.G., Maroon 5 og Jay-Z.

Hann hefur haldið fyrirlestra, kennt og staðið fyrir vinnustofum hjá ýmsum þekktum listastofnunum svo sem MoMA, Walker Art Center, MoCA Los Angeles, Pratt Institute, Stamford University, Howard University, Atlanta Contemporary Art Center, High Museum, Brooklyn Academy of Music, and Mount Royal University og The University of Winnipeg in Canada.

Hann er annar höfundur bókarinnar DEFinition: The Art and Design of Hip-Hop, sem gefin er út af Harper-Collins og hannaði nýlega bókina Def Jam Recordings: The First 25 Years of the Last Great Record Label, sem gefin er út af Rizzoli útgáfunni. 

Í verkum sínum rannsakar Cey sambandið á milli umbreytinga og uppgötvanna. Þau verk sem hann sýnir nú eru unnin með collage tækni þar sem unnið er með prentað efni, liti, ljós og skugga og sköpuð ný marglaga heild. Verk hans endurspegla kunnuglegar staðalmyndir úr nútíma samfélagi og eru innblásin af popplist sjöunda áratugarins, skiltagerð, teiknimyndasögum og dægurmenningu. Í verkum sínum fjallar hann um poppmenningu, samband kynja- og kynþátta og samfélagsmál.