Janette Beckman er einn virtasti ljósmyndari heims er kemur að ljósmyndun tónlistarmanna og -viðburða. Sögufrægar myndir hennar eru þekktar á meðal tveggja kynslóða í heimi pönks og hiphops. Hún hefur myndað hljómsveitir á borð við The Ramones, The Clash, Afrika Bambaataa, RUN DMC og EPMD ásamt því að hafa á árum áður ljósmyndað mótorhjólagengi á götum Los Angeles. Myndir hennar prýða einnig plötuumslög listamanna á borð við Beastie Boys, The Police, Tracy Chapman, Run DMC, Ministry, Grandmaster Flash, Salt n' Pepa og fleiri.
Janette er bresk en býr í New York en sýnir verk sín um allan heim meðal annars í London, París og New York þar sem þær hafa verið afar vel sóttar og hlotið mikið lof gagnrýnenda.
Hún hefur gefið út tvær bækur um verk sín. Made in the UK; The Music of Attititude var gefin út árið 2005 og hefur að geyma myndir og sögur af ýmsu tónlistarfólki og hljómsveitum frá 1977 til 1983. Hér koma við sögu rokkabillý, pönk, leðju- og döbb-reggý og listamenn eins og Elvis Costello, Sex Pistols og The Ramones. Formála bókarinnar ritar breski hönnuðurinn Paul Smith. Bókin The Breaks: Stylin' and Profilin var gefin út árið 2007 og birtir okkur heim rapps og hiphops frá árinu 1982 til 1990.