Elínborg Ostermann Jóhannesdóttir

Elínborg málar mikið á ferðalögum og þau veita henni innblástur. Árið 2012 gekk hún Laugaveginn svokallaða á milli Landmannalauga og Þórsmerkur og sú ferð hefur reynst henni drjúgur efniviður allar götur síðan. Bæði skissaði hún mikið í ferðinni og málaði í Þórsmörk en svo tók hún einnig mikið af ljósmyndum sem hún hefur verið að vinna úr síðan. Hún er heilluð af litunum í íslensku fjöllunum og náttúrunni, litadýrðinni á hverasvæðum og birtunni á Íslandi. Landmannalaugar hafa reyndar verið viðfangsefni hennar mun lengur og hún bendir mér á sína fyrstu glímu við það svæðið sem er mynd frá 1995.

Elínborg Ostermann Jóhannesdóttir er fædd 1954 í Reykjavík. Árin 1964 – 1966  sótti hún námskeið við Myndlistaskóla Reykjavíkur undir handleiðslu Benedikts Gunnarssonar, ætluð til að efla áhuga á og hæfileika barna fyrir myndlist. Sú reynsla hefur fylgt henni síðan.

Elínborg flutti til Vínarborgar árið 1974, þar sem hún kynntist vatnslitamálun og sótti tíma hjá þekktum listamönnum í þeirri grein, m.a. Bernhard Vogel, Gerhard Almbauer, Kurt Panzenberger og Ingrid Buchthal. Elínborg heillaðist af töfrum vatnslitana, þess að glíma við óúreiknanlega útkomu, þegar vatn og litir blandast saman og nánast enginn möguleiki er á að breyta og leiðrétta það, sem komið er á pappírinn.