Norski ljósmyndarinn Rune Molnes opnar ljósmyndasýningu í Gallerí Fold laugardaginn 13. september kl. 15.
Á sýningunni eru ljósmyndir sem Rune hefur tekið á ferðalögum sínum um Ísland en hann kom fyrst til landsins 2007. Síðan þá hefur hann komið tvisvar til landsins til þess að taka myndir af landinu og má sjá afrakstur þessara ferða á sýningunni núna.
Ljósmyndir Rune eru ljóðrænar túlkanir hans á Íslandi þar sem hann fæst við einsemdina, auðnina og mikilfengleika náttúrunnar. Ferðalög listamannsins um hálendi landsins eru andlegt ferðalag þar sem hann leitar inn á við, ferðalag sem skilar sér í einstökum ljósmyndum af stórbrotinni náttúru sem býður þó upp á yfirgnæfandi ró.
Rune Werner Molnes er fæddur 1978 í Bergen í Noregi. Ljósmyndaverk hans hafa meðal annars unnið til verðlauna í Evrópu og má þar nefna gullverðlaun í Prix De La Photographie í París árið 2012. Fjöldi fyrirtækja, safnara og stofnana eiga verk eftir Rune en auk þess að selja verk sín í galleríum í Noregi og víðar hafa þau birst í mörgum alþjóðlegum tímaritum.
Sýningin í Gallerí Fold er fjórða einkasýning Rune en hann hefur einnig tekið þátt í samsýningum í Noregi og Þýskalandi.