Guðmundur Viborg (1858-1936)

Guðmundur Viborg Jónatansson var fæddur 15. maí 1858 að Svansvík í Reykjafirði vestra. Hann vann á vélaverkstæði í Álftafirði við Ísafjarðardjúp á árunum 1890-94, en þar var sennilega um að ræða Langeyrarstöðina svokölluðu, hvalveiðistöð í eigu Norðmanna frá Haugasundi. Þar lærði Guðmundur sennilega vélsmíði og hirðingu véla, og varð sér þannig úti um undirstöðu í einhvers konar vélstjóranámi. Stuttu síðar var Guðmundur gerður að yfirvélstjóra á skipinu Solid frá Ísafirði, og stuttu síðar á Ásgeiri litla, fyrsta gufuskipi Íslendinga, en bæði voru í eigu Ásgeirs G. Ásgeirssonar kaupmanns á Ísafirði. Í vélstjóratali er Guðmundur talinn fyrsti starfandi vélstjóri hérlendra manna. Enn síðar var hann vélstjóri á gufubátnum Hvítá, eign barónsins fræga sem átti Hvítárvellina um eitt skeið. Heimildir herma að Guðmundur hafi starfað annað veifið sem vélstjóri fram til ársins 1910, að hann hætti því starfi og settist að í Reykjavík. Hefst þá annar kapítuli í lífi Guðmundar Viborg. Höfðu þá orðið nokkur þáttarskil í lífi hans. Rétt fyrir aldamótin höfðu hann og Helga Bjarnadóttir kona hans ákveðið að skilja. Frumorsökin var sennilega örbirgð þeirra hjóna, en einnig löngun Helgu til að flytjast vestur um haf. Guðmundur gat ekki hugsað sér að snúa baki við Íslandi. Árið 1903 varð hann einnig fyrir því reiðarslagi að sonur þeirra Helgu, Jónas Ingimar, fórst í sjóslysi, sextán ára gamall. Eftir 1910 stundaði Guðmundur gullsmíði í Reykjavík til dauðadags, enda völundur bæði á tré og járn, og raunar hvaða efni sem hann tók sér í hendur. Til er frásögn af því að á vélstjóraárum sínum hafi hann smíðað hlut í bilaða vél meðan á siglingu stóð og þannig forðað skipi sínu frá strandi. Eftir Guðmund liggja margir fagrir skrautgripir, skart, borðbúnaður, drykkjarhorn og silfurskildir. Flest bendir til þess að það hafi verið eftir komuna til Reykjavíkur sem Guðmundur hóf að mála myndir sér til ánægju. Eftir hann liggja u.þ.b. 70 olíumálverk. Guðmundur Viborg lést að heimili sínu, Suðurgötu 20, þann 4. janúar 1936.