Franska listakonan Valerie Boyce stundaði nám við Ecole Nationale Supérieure des Beaux Arts de Paris og School of Visual Arts í New York.
Hún hefur haldið einkasýningar og tekið þátt í samsýningum í Frakklandi, Bandaríkjunum og Íslandi.
Valerie Boyce málar landslag og raðar upp tímapunktum í verkum sínum sem saman mynda ferli og frásögn af umhverfinu. Sjálf segir Valerie að landslagsmálverkið sé eins konar sjálfsmynd af listamanninum, náttúran sem birtist á striganum sé speglun á innri náttúru listamannsins. Málverkið nærist á ástríðu málarans og deyji þegar hún er ekki fyrir hendi.