Ole Ahlberg (1949)

Ole Ahlberg sýndi í fyrsta skipti á Íslandi þegar hann tók þátt í sýningunni "Átök, hneyksli og nekt á Apaplánetunni" í Gerðubergi 1984 meðal annars með Alfreð Flóka, Björk, Sigtryggi Baldurssyni og fleirum.

Á sýningunni í Gallerí Fold Apríl 2012 sýndi Ole Ahlberg 25 litógrafíur þar sem Tinni er miðpunkturinn í heimi listamannsins. Myndirnar sýna Tinna í margslungnum og oft ögrandi aðstæðum. Öll þekkjum við Tinna, saklausa og ósnertanlega persónu, en við erum ekki vön að hann sé sýndur í því samhengi sem Ole setur hann í. Hrist er upp í ímynd okkar af hinum huggulega og óræða manni sem skyndilega er gerður að karlmanni, sem er samt undrandi á þeirri stöðu sem hann finnur sig í. Stöðu þar sem hann er ekki hræddur við að koma við bakhluta á konu.
Það er ekki bara Tinni sem er látinn takast á við nautnafullan heim, heldur er áhorfandinn dreginn inn í myndirnar þar sem hann veit ekki hvort líta eigi undan eða brosa út í annað. Það má segja að andstæðurnar mætist í verkum Ole Ahlberg og það er okkar, áhorfandans að stíga til baka eða láta hrífast að hinu yndislega samspili langanna og tilfinninga.
Ole Ahlberg sem er fæddur 1949, hefur skapað sér sérstakan sess í danskri samtímalist. Frá því að hann hélt sínu fyrstu sýningu á sjöunda áratugnum hefur Ole unnið með klippimyndir, grafík og málverk og stöðugt verið að þróa hinn nákvæma stíl sem er einkennandi fyrir verk hans. Ole sækir innblástur í danskan og alþjóðlegan súrrealisma sem hann nýtir sér á einstæðan hátt. Í verkum hans kemur fram ljóðrænn og hljóður andi, með lúmskan tón, þar sem rólegur og erótískur húmor gerir skilin á milli veruleikans og huga áhorfandans ógreinilegan.