Gísli Jónsson (1878-1944)

 Gísli er frábært dæmi um mann sem lifði fyrir köllun sína við erfið kjör, en hann notaði ungur hverja hjástund til að draga til myndar eins og segir í listasögu Björns Th. Björnssonar. Þar stendur meðal annars einnig; að tvítugur hafi Gísli ráðist sem ráðsmaður að Elliðavatni en seinna flutti hann að Mosfelli á Grímsnesi, þar sem hann bjó um skeið við gott atlæti og nokkurt ráðrúm til að sinna hugðarefnum sínum. Eftir að hafa unnið ígripavinnu víða um landið samfara því að sinna hugðarefni sínu, fluttist hann til Reykjavíkur og tók þá ákvörðun að helga sig alfarið myndlist og bjó lengst að Bergi við Langholtsveg. Fórnaði öllu fyrir það sem hugur hans stóð til, að gerast málari, því engin fátækt gat orðið þessum manni verri en afneitun þess. Hann var að mestu sjálfmenntaður en naut þó veturlangt tilsagnar Einars Jónssonar málara frá Fossi í Mýrdal, bróður Eldeyjar-Hjalta, sá var menntaður í Kaupmannahöfn og var þar samtíða alnafna sínum myndhöggvaranum frá Galtafelli fyrir aldamótin 1900...

Miðað við hina litlu skólun var hér á ferð mikill hæfileikamaður, og Kjarval, sem sá til hans þá ungur drengur, sagði hann hafa málað allt milli himins og jarðar í frítíma sínum, "mun hafa verið fyrsti fútúristum sem ég sá, - seinna kynntist ég mörgum og öðruvísi í útlöndum. Málaði sumar myndir sínar í skærum litum í annarlegum stíl, eitthvað svipað Sölva Helgasyni, en stórgerðari og einfaldari, stíllinn vafningar og sving og krúsidúllur, - þá vildi hann hafa miklu meira af landslagi í myndum sínum en aðrir málarar" Var trúlega til að þóknast kaupendum, sem fengu þá meira af landinu fyrir peningana.