Vefuppboð 23 - Bókauppboð

Gallerí Fold í samstarfi við fornbókaversluninna Bókina Klapparstíg hóf uppboð á bókum á síðasta ári. Viðtökunar voru framar öllum vonum og margir sem muna eftir bókauppboðum fyrri tíma tóku þessari nýung í starfsemi gallerísins fegins hendi.

Fjögur bókauppboð voru haldin í fyrra og nú byrjum við aftur með glæsilegu bókauppboð þar sem 105 bækur verða boðnar upp. Uppboðið hefst laugardaginn 25. febrúar og stendur til 18. mars.

Á uppboðinu núna verða meðal annars ágætt úrval af myndlistarbókum boðnar upp auk bóka um íslensk og norræn fræði.

Þá eru athyglisverðir prentgripir á uppboðinu, prent frá Viðey, Hólum í Hjaltadal og Hrappsey á Breiðafirði.

Af bókum prentuðum á Hólum í Hjaltadal má nefna 7. útgáfu Passíusálma Sr. Hallgríms Péturssonar prentuð 1745 en Lögþingisbók var prentuð í Hrappsey 1792.

Svo má nefna glæsilegt eintak af þýðingu Sveinbjarnar Egilssonar á Hómers kviðum, svokölluð Boðsritaútgáfa frá Bessastaðaskóla, boðin eru öll heftin prentuð í Viðey. Bókin er bundin í skreytt skinnband af bókbandsmeistaranum Sigurþóri Sigurðssyni.