Séruppboð til heiðurs Guðmundi frá Miðdal

Fyrsta uppboð ársins í Gallerí Fold er komið á netið. Um er að ræða séruppboð til heiðurs Guðmundi frá Miðdal, en á því eru 38 keramikverk erftir hann.

Guðmundur Einarsson var fæddur í Miðdal í Mosfellssveit árið 1895. Hann nam myndlist Í teikniskóla Stefáns Eiríkssonar 1911-13. Síðar fór hann til Danmerkur þar sem hann stundaði nám við teikniskóla Viggo Bjergs í Kaupmannahöfn 1919-20. Að því námi loknu hélt hann Í Det Kongelige Akademie for de Skønne Kunster í Kaupmannahöfn og lauk námi þaðan 1921. Þá hélt hann til Þýskalands þar sem hann lagði stund á myndhöggvaranám við einkaskóla Hans Schzegerle í München 1921-25 og nám í leirbrennslu við sama skóla 1924-26.

Guðmundur kom fyrst fram með verk opinberlega á sýningu Listvinafélagsins árið 1921. Guðmundur var fjölhæfur listamaður og lagði stund á höggmyndasmíði, málaralist og eirstungu svo eitthvað sé nefnt. Verk Guðmundar einkennast af áhrifum úr hrikalegu landslagi Íslands og áhuga hans á mannlífi frá fyrri öldum.

Guðmundur var frumkvöðull á ýmsum sviðum og hélt fyrstu grafíksýninguna hér á landi 1925 en það ár flutti hann inn fyrstu grafíkpressuna frá Þýskalandi. Hún var framleidd af Paul Wenzel í Dresden. Guðmundur notaði pressuna mikið og meðal annars eru hinar þekktu Reykjavíkurmyndir hans þrykktar á hana. Pressan er nú í eigu Gallerís Foldar og er þar til sýnis.

Stuttu seinna kom Guðmundur á fót fyrsta leirmunaverkstæðinu á Íslandi og var í tæpa tvo áratugi eini listamaðurinn sem sinnti þeirri listgrein. Guðmundur var fyrstur til að gera tilraunir með íslenskan leir og naut stuðnings hins opinbera til rannsókna á heppilegu hráefni fyrir leirmunagerðina.

Sonur Guðmundar,  Ari Trausti, gaf út bókina Listvinahús – Guðmundur frá Miðdal – leirmunir 1930 – 1956. Í bókinni er að finna myndir af flest öllum leirmunum sem Guðmundur skapaði. Bókin er til sölu í Gallerí Fold við Rauðarárstíg.

Guðmundur lést árið 1963.