Alþjóðlegt uppboð hjá Gallerí Fold

Listmunauppboð á verkum eftir erlenda höfunda hefst á uppboðsvef Gallerís Foldar, uppbod.is, laugardaginn 29. október.

Þetta er í fyrsta sinn sem haldið er uppboð á Íslandi þar sem einungis verk eftir erlenda höfunda er boðin til sölu en sum verkanna eru tæplega tvö hundruð ára gömul.

Listamennirnir koma frá 13 löndum flestir frá Danmörku en einnig frá Bretlandi, Finnlandi, Frakklandi Grikklandi, Grænlandi, Hollandi, Ísrael, Pólland, Spáni, Bandaríkjunum og Þýskalandi. Elsta verkið á uppboðinu er prent eftir Auguste Mayer frá 1834 en elsta málverkið er eftir breska málarann John Wray Snow og er frá 1851.

Meðal þess sem boðið verður upp er listaverkið Imagine all the people eftir John Lennon sem áritað er af Yoko Ono. Um er að ræða grafíkverk en Listasafn Reykjavíkur á  samskonar verk sem sýnt var á sýningu á Kjarvalsstöðum.

Þá verða boðin upp nokkur verk sem eru hönnuð af Andy Warhol en framleidd hjá Rosenthal. Tvær grafíkmyndir eftir danska rithöfundinn Dea Trier Mørch sem meðal annars samdi skáldsöguna Vetrarbörn. Fallegt landslagsmálverk frá Bretlandi eftir John Wray Snow, málverk af sofandi stúlku eftir Maxime Dastugue og einstaklega fallegt málverk af stúlku með hund eftir þýska málarann Johann Hubert Salentin.